Thursday, November 12, 2009

Hmm hmm hmm! Hjóli hjóli hjóli heim úr vinnunni.... Skoði skoði skoði... Glápi glápi glápi....

Úps! Hvað er þetta? Löggubíll...og tveir lögregluþjónar!
Myndarlegi lögregluþjónninn bendir mér vinsamlegast á að stöðva hjólið. Hinn lögregluþjónninn bograr yfir sekt sem hann útbýr fyrir annan hjólaníðinginn. Hann er þó með ljós. Ég velti fyrir mér hvað hann hafi þá gert af sér. Gúlp, mér líst ekki á blikuna.

Hvar er ljósið þitt unga dama?

Æ, ég er ekki með ljós. Ég er nýflutt hingað frá Íslandi!

Og hvað, það hljóta að vera hjóla á Íslandi. Er ekki skylda að hafa ljós þar?

Nei, sko. Á Íslandi erum við ekki með svona fína hjólastíga eins og hér. Og við erum með fullt af fjöllum, svo það er rosa erfitt að hjóla.

Nú, ég skil. En það er mjög mikilvægt að vera með ljós. Þau geta bjargað lífi manns.

Já, einmitt. Er eitthvað annað sem ég þarf að hafa á hjólinu? Þarf ég að hafa hjálm?

Nei, þess þarftu ekki. Kannski bjöllu.

Ok. Hvar fær maður svona hjólaljós eiginlega?

(hvumsa) Hjólaljós?! Bara...allsstaðar, t.d. í 7-11 þarna hinum megin við götuna!

Núnú! Flott er.

Þú sleppur við sekkt í þetta skiptið. Hvar býrðu?

Á Amager.

Já, þú mátt ekki hjóla lengra. Þú gætir keypt far heim fyrir hjólið á 40 kr (Gúlp, 1000 íslkr).

Já...má ekki fara með hjólið í strætó?

Nei, það máttu ekki.

Eeen má ég labba heim?

Já, það máttu.

Allt í lagi, takk fyrir.

Mundu bara að læsa hjólinu þínu, svo því verði nú ekki stolið!

Geri það, bless bless.

Bless!

Þarna skall hurð nærri hælum. Ég þorði ekki öðru en að læsa hjólinu mínu samstundis (það er núna fyrir utan Alþingishúsið held ég) og ganga rösklega heim á leið. Heimferðin var þó ekki leiðinleg, var með góðan subway nestisbita nýsmurðan. Stundum borgar sig að vita minna en maður, glenna upp fiskiaugun og geifla fram undrandi svipnum, dass af Katli Mána. Önnur leið er að leika íslenska kreppufórnarlambið. Ég var ekki lengi að komast upp á lagið með að kasta fram frösum eins og 'Islandskrisen hjemmefor' og 'den stakkels syge islenske krone'. Þá bráðna þeir úr vorkunn og mér eru allir vegir færir! Fékk t.d. í gær 10% nemendaafslátt af ferðasprautunum mínum. En ætli ég verði ekki að hætta að haga mér eins og afkvæmi Jóakims Aðalandar og Frank Abagnale Jr. Ég kaupi mér ljós á morgun. Kannski verður það mér leiðarljós í lífinu líka. Ég man þegar ég skoðaði dagskránna í den í barnaefnis leit, og rak augun sífellt á þetta Leiðarljós. Ohh leiðinlegi þátturinnum um fólkið með skrýtna hárið sem var alltaf grátandi!

No comments:

Post a Comment